• Sigurborg Ósk

Framboðstilkynning

Updated: Feb 12, 2018

Kæru vinir,

ég hef ákveðið að bjóða mig fram til forystu í prófkjöri Pírata í Reykjavík.


Ég er fæddur og uppalinn Kjalnesingur, sveitastelpa sem elskar að búa í borginni. Ég brenn fyrir umhverfis- og skipulagsmálum og er þakklát fyrir að hafa fengið að starfa í Umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkurborgar á líðandi kjörtímabili. Í vinnu minni í ráðinu hef ég öðlast dýrmæta sýn á kerfi og ferla borgarinnar ásamt því að hafa góða yfirsýn yfir allt það starf sem unnið er hjá borginni.

Sem fulltrúi Pírata hef ég ávallt unnið störf mín af heilindum og metnaði þar sem ég hef lagt mikla vinnu í að lesa og rýna öll gögn og taka allar ákvarðanir eins upplýst og mögulegt er í öllum málum.Ég hef víðtæka menntun tengda umhverfis- og skipulagsmálum. Ég útskrifaðist af listnámsbraut árið 2006, kláraði BSc. í umhverfisskipulagsfræðum árið 2010 og MSc. í landslagsarkitektúr árið 2012. Ég er ennfremur hálfnuð með MSc. gráðu í skipulagsfræði. Undanfarin ár hef ég unnið hjá Yrki Arkitektum og sinnt stundakennslu við LbhÍ samhliða setu minni í Umhverfis- og skipulagsráði.


Frá því ég man eftir mér hef ég barist fyrir tilverurétti allra lifandi vera. Réttindi manna, dýra og náttúru eru mitt hjartans mál. Í Reykjavík höfum við tækifæri til þess að sameina samgöngur og náttúru í vaxandi borg og það er grundvallaratriði að leggja meiri áherslu á vistvænar samgöngur. Borgarlína er lykillinn að skilvirkara og réttlátara samgöngukerfi en við höfum í dag. Með henni haldast í hendur fjölbreyttir samgöngumátar þar sem deilihagkerfið þarf að vera í forgrunni. Þannig verður borgin öruggari, mengun minnkar og vistspor okkar líka.


Í samfélaginu er lýðræði í stöðugri þróun og hafa Píratar í Reykjavík unnið mikið starf í að efla beint lýðræði þannig að þátttaka einstaklinga í borgarkerfinu verði bæði auðveldur og sjálfsagður hlutur. Ég brenn fyrir, og vil leiða þessa mikilvægu vinnu áfram í Reykjavíkurborg ásamt öðrum Pírötum.


Á líðandi kjörtímabili hef ég séð hvar er hægt að opna og styrkja ferla ásamt því að gera þá lýðræðislegri. Verkefni eins og Mitt hverfi og Þín rödd í ráðum borgarinnar eru öflugir vísar að verkfærum sem hægt er að styrkja verulega svo beina lýðræðið veiti kjörnum fulltrúum aðhald. Þar hafa augu mín einnig opnast fyrir því að íbúar borgarinnar eru oft metnaðarfyllri en kjörnir fulltrúar þegar kemur að umhverfismálum, félagslegu jafnrétti og mörgum öðrum málum. Því er mikilvægt að opna leið fyrir þá til þess að hafa varanleg áhrif. Með því að valdefla grasrótina, íbúasamtök og íbúa verður Reykjavík að þeirri borg sem við viljum öll sjá.


Því framtíðarsýn Pírata er sú að íbúar borgarinnar hafi sjálfir kost á að taka þátt í að móta framtíðarsýn Reykjavíkur.

0 comments

Recent Posts

See All